50

Pistill: Post 2.1-4 (-11)

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“

 

Hvítasunna er stofndagur kirkjunnar, og einskonar vígsludagur hinnar almennu kirkju sem Guð gefur í Jesú Kristi. Með því að postularnir töluðu á tungum framandi þjóða er heilagur andi kom yfir þá á hinni fyrstu hvítasunnuhátíð, og fengu skilaboð um að fara út um allan heim og djörfung til að predika, þá hefur kirkjan einnig kallað þetta uppskeruhátíð Krists.

Hvítasunnan er þriðja stórhátíð kristninnar. Með hvítasunnuhátíðinni lýkur páskatímanum. Nú eru liðnar sjö vikur frá páskum, og fimmtíu dagar. Af þeirri ástæðu ber hvítasunnan á mörgum erlendum tungum nafn sem dregið er af gríska orðinu pentecosté (hinn fimmtugasti).

Eins og páskahátíðin á einnig hvítasunnan fyrirrennara í hátíðahaldi Ísraels. Hátíðin sem haldin er á þessum tíma að sið gyðinganna er einskonar uppskeruhátíð. Hún er þakkarhátíð fyrir fyrstu kornuppskeruna. Þess var jafnframt minnst þegar lýður Guðs hafði móttekið lögmálið á Sínaí. Hátíðin er því einskonar sáttmálahátíð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gísli.

Þetta er góð færsla á réttum degi.

Takk fyrir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 04:14

2 Smámynd: Eysteinn Skarphéðinsson

Varstu ekki lengi að pikka þetta blogg ?

Eysteinn Skarphéðinsson, 12.5.2008 kl. 00:37

3 Smámynd: Gísli Torfi

Já þetta á vel við og Eysteinn svarið er Nei

Gísli Torfi, 12.5.2008 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband